149. löggjafarþing — 111. fundur,  27. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[20:31]
Horfa

Frsm. minni hluta utanrmn. (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (M) (andsvar):

Frú forseti. Í fyrsta lagi vil ég þakka hv. þingmanni fyrir að taka þátt í umræðunni með okkur. Ég held að það hjálpi til og hafi heilmikið gildi þótt auðvitað væri gott að einhverjir hv. stjórnarliðar sæju sér fært að rökræða við okkur líka.

Það er rétt sem hv. þingmaður segir, það kemur mér ekki á óvart að áhugi sé á að leggja sæstreng til Íslands. Ég hef svo sannarlega orðið var við það á undanförnum árum. En það kemur mér á óvart hversu langt þetta verkefni er komið og margt annað í þeirri frétt sem vitnað var til, m.a. að menn telji í rauninni einu hindrunina í veginum vera biðina eftir staðfestingu viðskiptaráðherra Bretlands. Það kom mér reyndar líka á óvart að lesa viðtal Bjarna Benediktssonar, hæstv. ráðherra, við Daily Telegraph frá því fyrir um ári síðan þar sem hann ræddi einmitt þessi sæstrengsmál sem, af því viðtali að dæma, virtust lengra komin en ég hafði gert mér grein fyrir.

En þá að spurningu hv. þingmanns um hvað þriðji orkupakkinn hafi að segja með því að ýta undir sæstrengslagningu. Þetta er atriði sem er búið að ræða heilmikið í þinginu og nægir einfaldlega að vísa til þess að markmið þriðja orkupakkans er að ýta undir samþættingu, samtengingu evrópska raforkukerfisins og tengja sérstaklega við svæði sem hafa áður verið einangruð, eyjar eru nefndar sérstaklega, og auka aðgang að umhverfisvænni orku. Þetta er svo áréttað í breytingum á þeim reglugerðum sem hér er undir, 713, 714 og 715, með reglugerð 347/2013, þar sem enn er skerpt á valdi ACER, sameiginlegu orkustofnun Evrópusambandsins, (Forseti hringir.) til að knýja á um þetta.