149. löggjafarþing — 111. fundur,  27. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[20:36]
Horfa

Frsm. minni hluta utanrmn. (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (M) (andsvar):

Frú forseti. Ég ítreka þakkir til hv. þingmanns og ágætar spurningar. Ég held að þetta hafi heilmikið skýringargildi og ég fagna líka uppbyggilegu viðhorfi hans og að hann bjóði upp á þann möguleika að hann kunni að skipta um skoðun. Ég vildi óska að stjórnarliðar nálguðust málið á sama hátt.

Svo ég svari spurningunum geri ég ráð fyrir að þessir fjárfestar sem fjallað er um í Sunday Times séu að líta til stöðunnar eins og hún er þegar búið er að innleiða þriðja orkupakkann. Það er hins vegar rétt sem hv. þingmaður segir að auðvitað þarf ekki þriðja orkupakkann til að leggja sæstreng, en hann ýtir hins vegar undir lagningu sæstrengs. Þrátt fyrir að hv. þingmaður segi að hann átti sig ekki á því með hvaða hætti meira regluverk, meira bákn, geti ýtt undir að af þessu verði er það einmitt kjarni málsins. Þetta aukna regluverk er til þess ætlað að ná pólitískum markmiðum. Og pólitísk markmið þriðja orkupakkans eru alveg skýr; samtenging evrópska raforkunetsins og aukinn aðgangur að grænni orku.

Hv. þingmaður spurði um greinarnar sem ég vísaði til, það voru vissulega reglugerðir 713 og 714 en einnig breytingar á þeim greinum með reglugerð 347/2013 sem skerpir mjög á hlutverki ACER.

Varðandi tilgang þriðja orkupakkans og með hvaða hætti hann muni ýta undir lagningu sæstrengs nægir að lesa sér til um hlutverk ACER, t.d. bara á heimasíðu þessarar stofnunar, en það er að ryðja úr vegi hindrunum fyrir slíkum tengingum. Þar er líka hægt að líta á raundæmi, dæmið um Kýpur, sem eins og menn þekkja er eyja sem stendur til að tengja með sæstreng. ACER lítur á það sem hlutverk sitt í því sambandi að fylgjast með því að stjórnvöld í hlutaðeigandi löndum (Forseti hringir.) þvælist ekki fyrir því að af þeirri framkvæmd verði.