149. löggjafarþing — 111. fundur,  27. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[20:44]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Helga Hrafni Gunnarssyni fyrir ágæta ræðu. Strax í byrjun ræðunnar kom hann inn á hlut sem ég persónulega vildi gjarnan að yrði rammaður inn, ef svo má segja, aðeins betur í meðferð þingsins um þriðja orkupakkann, sem sagt um stöðuna hér innan lands eftir innleiðingu orkupakka þrjú með sæstreng annars vegar, en síðan atriði sem mér finnst vanta umræðu um, þ.e. stöðuna eftir lagningu sæstrengs án orkupakka þrjú. Það er í rauninni efnisatriði sem ég með litlum ýkjum treysti mér til að segja að hafi verið hér um bil alveg skautað fram hjá. Þetta er nefnilega atriði sem er inni í þessari sviðsmyndagreiningu, ef svo má segja, og skiptir máli að átta sig á hvernig stæði.

Af því að hv. þingmaður hefur velt því upp sem möguleika og hreinlega talað fyrir því að fresta málinu fram á haust langar mig að vita hvort hann teldi skynsamlegt að þetta væri eitt af þeim atriðum sem yrði raunverulega rammað inn — þá vísa ég aftur í það sem ég spurði þingmanninn um í fyrri ræðu hans í kvöld í tengslum við sölu Rússa á orku inn á Þýskalandsmarkað og fleira slíkt. Þetta er augljóslega fær leið og praktíseruð í dag í framkvæmd. Mig langar að fá sjónarmið þingmannsins gagnvart því hvort hann teldi ekki rétt að stilla upp þeirri sviðsmynd sem kæmi fram að lögðum sæstreng án orkupakka þrjú.