149. löggjafarþing — 111. fundur,  27. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[20:48]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Helga Hrafni Gunnarssyni fyrir svarið. Ég verð að viðurkenna að skilvirkni er ekki það hugtak sem ég tengi helst við Evrópusambandið, ég gæti hugsað ábyggilega um 300 hugtök sem mér þættu standa Evrópusambandinu nær en skilvirkni. Ég hef aldrei heyrt neinn tengja Evrópusambandið við skilvirkni, en látum það nú liggja milli hluta, þetta er útúrdúr.

Það eru sjónarmið þingmannsins að orkuverð muni hækka meira hér innan lands að lögðum sæstreng án orkupakka þrjú en með orkupakka þrjú. Þar held ég að hv. þingmaður — nú er ég að vísa í inngangsorðin sem hann las upp sem ég man ekki hvernig voru tölusett — horfi til markmiðssetningar Evrópusambandsins eins og markmið ættu við um hvern markað fyrir sig. Ég held að þetta þurfi að lesa þannig að þessi markmið eigi yfir allan raforkumarkaðinn, hinn samtengda, sameiginlega, að ganga. Þá er ég hræddur um að ákvarðanir yrðu frekar teknar til að ná þeim markmiðum út frá hagsmunum stærri ríkjanna og öflugri en ekki okkar góða lands úti í Atlantshafinu, sem svo marga langar að tengjast.

Ég ítreka aftur það sem ég sagði um skilvirknina, það tengi ég alls ekki við Evrópusambandið (Forseti hringir.) og jafnvel ekki (Forseti hringir.) þegar ég tjalda öllu til.