149. löggjafarþing — 111. fundur,  27. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[21:38]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Þorsteini Sæmundssyni fyrir ræðuna. Einmitt á þeim nótum sem hv. þingmaður kom inn á þá furðar maður sig alltaf meira og meira á því hversu treg ríkisstjórnin er og ríkisstjórnarflokkarnir, með hæstv. utanríkisráðherra í broddi fylkingar, til að nýta þann innskrifaða farveg sem er tilgreindur í 102. gr. EES-samningsins til að færa þessa fyrirvara. Þeir virðast vera kjarnaatriði í þeirri ákvörðun þingflokks Sjálfstæðisflokksins að styðja við málið. Það virðist vera kjarnaatriði.

Þegar það er fyrirskrifað með hvaða hætti skuli koma fyrirvörum inn í gegnum sameiginlegu EES-nefndina, kann hv. þingmaður einhverja skýringu á því hvers vegna ríkisstjórnarflokkunum, og þá sérstaklega hæstv. utanríkisráðherra, hugnast ekki að fara þá leið? Sú ástæða sem helst hefur verið tilgreind er að sá farvegur sem snýr að 102. gr. sé ekki útslitinn af notkun. Það eru býsna haldlítil rök og þau verða þá auðvitað rök í sjálfu sér fyrir því að nota leiðina ef menn upplifa að þeir séu jafnt og þétt að fyrirgera henni með notkunarleysi.

Kann hv. þingmaður einhverja aðra skýringu á því að menn heykjast á því að nota 102. gr. en þá sem ég tilgreindi núna, að hún hafi ekki verið notuð hingað til? Hún er þarna. Hún er býsna skýr. Það hljóta að vera fleiri rök sem tínd hafa verið til hvað það varðar að notast ekki við leiðina.