149. löggjafarþing — 111. fundur,  27. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[22:02]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni ræðuna. Þessi leit að fyrirvaranum er þýðingarmikil í málinu vegna þess að málið var lagt upp og kynnt þannig að það sem gerði óhætt að samþykkja þessa þingsályktunartillögu og axla með því þær þjóðréttarlegu skuldbindingar sem því fylgja var að lagalegur fyrirvari gerði þetta óhætt.

Ég ætla að leyfa mér að minna á að 15. maí sl. upphófst umræða um lagalegu fyrirvarana eins og þeir blasa við í þeirri umræðu sem á eftir fylgdi þegar ég hafði tækifæri til að spyrja hv. þm. Birgi Ármannsson hvort hann hefði séð þennan lagalega fyrirvara. Með leyfi forseta ætla ég að grípa niður í svarið. Hv. þm. Birgir Ármannsson segir:

„Sá lagalegi fyrirvari birtist í frágangi málsins. Lagalegur fyrirvari er ekki eitthvað sem maður finnur módel að í lögfræðilegri formálabók.“

Síðan víkur hann að ákvörðun um tengingu í gegnum sæstreng og segir, með leyfi forseta:

„Slíkar tillögur liggja ekki fyrir og slík ákvörðun er hvorki í undirbúningi né á borðinu. Við getum kallað þetta lagalegan fyrirvara eða yfirlýsingu eða hvaðeina en efnislega held ég að hv. þingmaður þurfi ekki að efast um hvað í þessu felst af okkar hálfu.“

Það er kannski einn skýringarkostur að einhvern veginn sé enginn fyrirvari. Eða hvernig skilur hv. þingmaður þetta svar þingflokksformanns Sjálfstæðisflokksins sem er kannski fremstur meðal þeirra (Forseti hringir.) óbreyttu þingmanna sem styðja þetta mál ríkisstjórnarinnar?