149. löggjafarþing — 111. fundur,  27. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[22:30]
Horfa

Frsm. minni hluta utanrmn. (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (M) (andsvar):

Forseti. Því fylgir alltaf einhver óvissa þegar menn samþykkja þingsályktunartillögur eða frumvörp. Menn sjá ekki framtíðina fyrir en leitast þó við að meta eins og kostur er áhrif frumvarpa og þingsályktunartillagna. Þess vegna er afskaplega sérkennilegt að í þessu stóra máli skuli menn leitast sérstaklega við að líta fram hjá því sem þó er hægt að sjá fyrir um áhrif þessarar þingsályktunartillögu. Kannski ekki hvað síst, eins og hv. þingmaður nefndi reyndar, afleiðingar fjórða orkupakkans sem ætla má að sé þá beint framhald þess þriðja miðað við rökstuðning ríkisstjórnarinnar. Hvers vegna ekki að líta til þeirra áhrifa sem menn þó geta séð fyrir? Hv. þingmaður setti fram kenningu um þetta og taldi að stjórnarliðið myndi telja erfiðara að klára málið í haust þegar mál hefðu skýrst.

Hvað segir það okkur þá um eðli þessa máls? Það getur ekki verið gott mál sem er þess eðlis að því meiri upplýsingar sem menn fái og því meira sem komi í ljós að þeim mun verra verði það og þeim mun erfiðara verði að sannfæra þingmenn um að samþykkja það.

Þessi fjórði orkupakki sem hv. þingmaður gat um er kallaður vetrarpakkinn, skilst mér. Það eru vinsælir sjónvarpsþættir nú um stundir þar sem viðkvæðið er veturinn nálgast, þegar menn óttast einhverjar hörmungar. Það er áminning um að undirbúa sig fyrir það sem í vændum er. En nú þegar vetrarpakkinn nálgast er viðkvæði stjórnvalda að reyna að fela hann og undirbúa sig alls ekki.