149. löggjafarþing — 111. fundur,  27. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[23:07]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka svarið. Nú er það svo að það er framhald á þessu máli. Orkustefna Evrópusambandsins er gefin okkur og Evrópusambandslöndunum, og eins og hv. þingmaður orðaði það einhvern tímann í ræðustól, með skeið. Við fáum gerðirnar, stefnuna, í smáskömmtum til að innleiða í okkar rétt.

Nú eru uppi efasemdir um að sú ferð sem hér er farin með orkupakka þrjú standist stjórnarskrána, og eru þær efasemdir ekki bara hjá okkur heldur hjá löglærðum mönnum líka. Efasemdir eru um að rétt sé staðið að innleiðingunni sem gerir að verkum að við getum skapað okkur eða búið til aðstæður fyrir dómsmál út af rangri innleiðingu. En síðast en ekki síst höfum við reynt að benda á, og mig langar að spyrja þingmanninn út í það, hvort það sé kannski ekki eitt af lykilatriðunum, að við erum að innleiða þrátt fyrir þennan fyrirvara markmið stefnunnar og hugmyndafræðina. Við erum að kvitta upp á að þetta system sem verið er að búa til hjá Evrópusambandinu utan um orkuviðskiptin, að við ætlum að verða partur af því, í raun möglunarlaust, því að fyrirvarinn er bara til heimabrúks, eins og lögmenn hafa bent á réttilega.

Er ekki svolítið sérstakt að vera að berja sér á brjóst og segja, eins og fylgjendur málsins hafa sagt, eða ekki sagt því að þeir hafi ekki tekið mikið til máls hér, að það sé lítið mál að innleiða þetta með þeim hætti?