149. löggjafarþing — 111. fundur,  27. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[23:12]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Þorsteini Sæmundssyni fyrir ræðuna. Þingmaðurinn kom inn á atriði sem mér þykir hafa fengið heldur litla athygli, þó einhverja, en það snýr að sókn í skaðabætur á grundvelli ófullnægjandi innleiðingar og þar fram eftir götunum. Sókn í skaðabætur er ekki fyrst og fremst komin frá stofnunum Evrópusambandsins heldur er hún keyrð áfram af einkaaðilum. Þar eru, eins og við þekkjum í kjötmálinu, fyrst og fremst heildsalar. Það væri kannski hægt að orða það nákvæmar, en segjum að það séu heildsalar sem eru að sækja í þessar skaðabætur á grundvelli ófullnægjandi innleiðingar.

Þá langar mig að spyrja hv. þingmann: Komi upp sú staða að skaðabætur verði sóttar á annað borð með einhverjum ráðum á grundvelli þriðja orkupakkans, hvort telur hann líklegra að það verði vegna aðgerða stofnana Evrópusambandsins eða einkaaðila sem hafa hagsmuna að gæta og hafa mögulega lagt fjármuni í undirbúning á einhvers lags tengingu og telja sig þá hlunnfarna verði regluverkið þannig úr garði gert að hún fáist ekki?