149. löggjafarþing — 111. fundur,  27. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[23:19]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég held að þetta geti verið blanda af tveimur ástæðum. Sú fyrri er vel þekkt úr sögunni. Hún er sú að menn „nenni ekki að hafa þetta hangandi yfir sér lengur“. Menn voru til í að fórna miklum hagsmunum fyrir að hafa ekki málin hangandi yfir sér lengur. Hin ástæðan gæti verið íslenska stjórnmálamannaheilkennið, að menn geta ekki viðurkennt að vera á rangri leið, geta ekki viðurkennt að hafa gert mistök, geta ekki sagt: Við erum á rangri leið, snúum af leið meðan við getum, förum hina leiðina sem margir menn eru búnir að ráðleggja okkur að fara. Margir kunnáttumenn, góðir lögmenn, þeir þrír eða fjórir sem við erum búnir að teyma hérna fram núna segja allir: Sendið þetta til baka í sameiginlegu nefndina.

Ég man hins vegar eftir tveimur á sínum tíma sem vildu ekki fara þá leið og segja bara: Innleiðum þetta.

Þeir eru, eins og ég segi, fjórir.

Hins vegar var skammtað inn á fundi utanríkismálanefndar undir restina. Það var ekki tekið tillit til þess að menn vildu fá gesti. Þeim var hafnað. Það virðist líka hreinlega hafa verið handvalið hvað menn lásu upp af þessum umsögnum vegna þess að þegar maður talaði við ráðherra þann stutta tíma sem hann var hér, og var ekki blíður á manninn frekar en refurinn, kom greinilega í ljós að menn hafa handvalið og lesið það sem þeim hentar.

Það er grafalvarlegt mál ef menn hunsa ráðleggingar góðra fagmanna sem eru nánast allar samhljóða. (Forseti hringir.) Það skilur maður ekki og veit ekki hvað býr þar að baki.