149. löggjafarþing — 111. fundur,  27. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[23:55]
Horfa

Frsm. minni hluta utanrmn. (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég spurði hæstv. forsætisráðherra út í fjórða orkupakkann fyrr í dag og hvers vegna hann væri ekki settur í samhengi við þann þriðja og ræddur hér í þinginu. Satt best að segja olli svarið mér talsverðum áhyggjum. Hæstv. ráðherra vísaði einfaldlega í að þetta hefði allt sinn gang, þessar gerðir kæmu inn og færu í ákveðið ferli og við þyrftum bara að bíða eftir því að þetta kæmi á færibandinu, án þess að hæstv. forsætisráðherra hafi orðað það þannig. Þetta veldur mér sérstökum áhyggjum í ljósi þess að ríkisstjórnin kynnir nú þennan pakka og berst fyrir innleiðingu hans á þeim forsendum að hann sé einfaldlega búinn að færast það langt eftir færibandinu að komið sé að okkur að taka við honum og opna hann. Þá hlýtur maður að spyrja sig: Mun þá ekki það sama eiga við um fjórða orkupakkann?

Mér þótti mjög áhugavert að heyra hv. þingmann nefna að það hversu vel Íslendingar hefðu staðið sig við að innleiða fyrstu og aðra orkutilskipunina — og þegar ég segi vel er ég að vísa til afstöðu Evrópusambandsins, þ.e. við höfum innleitt þetta jafnvel umfram það sem við hefðum þurft að gera — séu sérstök rök fyrir því að við þurfum ekki undanþágur nú. Hvað segir það okkur um samspilið milli þess hvernig ríkisstjórnin ætlar að innleiða þriðja orkupakkann og þess sem er að vænta í umræðu um þann fjórða?