149. löggjafarþing — 111. fundur,  28. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[00:00]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Gunnari Braga Sveinssyni fyrir ræðuna. Ég verð að viðurkenna að þar sem ég var upptekinn annars staðar missti ég af dagskrárliðnum óundirbúnar fyrirspurnir fyrr í dag. Mig langar eiginlega til að spyrja hv. þingmann hvort ég hafi skilið það rétt að forsætisráðherra hafi hér fyrr í dag verið spurð um það hvort ekki væri ástæða til að skoða innihald fjórða orkupakkans í samhengi við innleiðingu þriðja orkupakkans, en hún hafi talið, ef ég skildi hv. þingmann rétt, ekki sérstaka ástæðu til þess. Getur þingmaðurinn vinsamlegast staðfest hvort ég hafi skilið þetta rétt? Ég mun þá fara á netið á eftir og horfa á þessi orðaskipti ef þau eru með þessum hætti, því að þetta er auðvitað alveg makalaust, svo að það sé bara orðað eins og það slær mig.

Þessi fjórði orkupakki hefur síðan á miðvikudaginn í síðustu viku, eða fimmtudaginn kannski, svo sanngirni sé gætt, verið aðgengilegur stjórnvöldum og svo sem væntanlega öllum þeim sem vilja. Fluttar hafa verið fréttir af því að hann hafi verið til kynningar hjá hagsmunaaðilum. Þetta slær mig allt þannig að það megi ekki koma til sú staða hjá þeim sem nú koma að innleiðingu þessa þriðja orkupakka, að ný gögn geti komið inn í málið eða komi fram. Það sé líklegt til að rugga bátnum þannig að menn finni sig í þeirri stöðu innleiðingar að málinu þurfi að fresta til haustsins. Hvernig slær þetta hv. þingmann allt saman?