149. löggjafarþing — 111. fundur,  28. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[00:16]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni fyrir spurninguna. Hann spyr um Orkustofnun og samspil og tengingu hennar við orkumálastofnun Evrópu. Ef regluverkið er lesið, þriðji orkupakkinn og regluverkið utan um orkumálin í Evrópusambandinu, þá er alveg ljóst hvert stefnir enda er markmiðið ekki falið. Markmiðið er sameiginlegur markaður og að auka hlut endurnýjanlegra orkugjafa. Það er gert með ýmsu móti, m.a. því sem ég hef verið að fara yfir hér í ræðustóli og á eftir að ljúka. Ég hef bara lagt það til hliðar á meðan ég fjalla um álitsgerðina og reyni að kafa svolítið ofan í hana og mun gera það í næstu ræðu líka. Svo mun ég taka upp fyrri iðju og fjalla um upprunaábyrgðir raforku. Þar kemur mjög skýrt fram hver framtíðin er. Það á að auka hlut endurnýjanlegra orkugjafa með því að búa til verð á þá. Þá hækkar verðið á þeirri orku sem leiðir til þess að að framleiðendur leitast við að auka framleiðslu á slíkri orku sem verður til þess að eftirspurn eftir óhreinu orkunni minnkar. Framtíðin er því nokkuð fyrirsjáanleg. Þetta á að verða eitt svæði þar sem hægt er að veita orkunni hvert sem hennar er þörf. Verðið verður auðvitað hærra vegna þess að nú þegar er það mjög hátt í sumum Evrópulöndum. Orkunni mun verða veitt frá ódýrari svæðum sem verður til þess — og þetta er samkvæmt samkeppnisreglum Evrópusambandsins, ekkert endilega orkutilskipuninni heldur samkeppnisreglunum. Samkeppni eins og hérlendis þar sem ríkið á megnið af orkufyrirtækjunum verður ekki leyfð.