149. löggjafarþing — 111. fundur,  28. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[00:40]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Gunnari Braga Sveinssyni fyrir andsvarið. Þegar hinar eiginlegu samningaviðræður, sem sumir kölluðu svo, við Evrópusambandið upphófust var auðvitað ekkert annað í gangi en aðlögunarviðræður, það hvernig Ísland aðlagaði sig best regluverki Evrópusambandsins og gerði það innan forsvaranlegs tíma. Orkupakkinn eins og hann liggur fyrir er bara eitt boxið sem búið er að tikka í til viðbótar við þau sem eru afgreidd og kláruð.

Ég held að þetta sé af þeim meiði að aðildarsinnar séu áfram um öll innleiðingarverkefni sem á fjörur okkar rekur. Ég held að þetta sé slíkt risamál í samhengi hlutanna til framtíðar að það hljóti að verða þeim sem um þessa hluti dreymir, þ.e. um inngöngu í Evrópusambandið, mikill léttir að þetta mál verði afgreitt og frá. Þegar næsti hringur, hvenær sem það nú verður, vonandi aldrei, verður tekinn um aðlögunarviðræður að Evrópusambandinu þurfi ekki að hafa áhyggjur af orkunni og þar með einu atriðinu færra að hugsa út í. Mér finnst margt benda til þess, ef maður veltir fyrir sér hvernig þetta liggur, þ.e. stuðningnum við innleiðinguna. Ef við horfum á hv. þingmenn Samfylkingarinnar og Viðreisnar held ég að það séu bara hreinlega engar athugasemdir frá neinum þeirra, fyrir utan það eitt að hafa ekki fengið að greiða atkvæði um málið enn sem komið er til að samþykkja það.