149. löggjafarþing — 111. fundur,  28. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[00:49]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Frú forseti. Ég verð að viðurkenna að ég hafði ekki hugsað þetta svona, en að fenginni reynslu virðist refsivöndurinn frá Brussel, eða úr því regluverki öllu, vera að hrista býsna hratt upp í núverandi ríkisstjórnarflokkum. Það skyldi þó aldrei vera að það yrði ríkisstjórn, samsett nokkurn veginn með þeim hætti sem nú er, eða bara eins, og þá meina ég núverandi ríkisstjórn, sem myndi raunverulega fullnusta málið þrátt fyrir fagurgalann um annað.

Við sjáum það bara á málinu sem snýr að ófrosna kjötinu að menn virðast í rauninni vera tilbúnir að gefa eftir býsna mikla hagsmuni til að koma sér undan frekari vandarhöggum að utan. Í framsetningu þessa máls er ekkert sem bendir til þess að menn myndu nálgast úrlausn samningsbrotamála eða eitthvað þess háttar með öðrum hætti en t.d. í ófrosna kjötinu.