149. löggjafarþing — 111. fundur,  28. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[01:15]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (M) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Ég ætla að koma fyrst inn á fyrirvarann. Við erum sammála um að við þurfum að ræða betur lagalega fyrirvarann okkar, hver sem hann kann að vera. Það þarf að upplýsa um hann og greina hann og vinna þarf lögfræðileg álitaefni varðandi meinta lagalega fyrirvarann sem við erum að setja. Hvaða hald er í honum? Er búið að rannsaka hann? Hver verða áhrif hans í framtíðinni? Það þarf að ræða hann í samhengi líka við fyrirvara Norðmanna sem ku vera átta talsins. Það þarf að ræða hann í samhengi við hvort eitthvert hald sé í þeim fyrirvörum. Hefur Evrópusambandið sýnt einhver viðbrögð við þeim fyrirvörum eða heldur það að sér höndum?

Nú er mál fyrir stjórnlagadómstólnum í Noregi sem verður tekið fyrir í haust. Er ekki skynsamlegt að bíða eftir niðurstöðu hans? Hvað finnst hv. þingmanni um það? Það er svo margt sem þarf að ræða miklu betur.

Svo á ég alveg eftir að koma inn á meginmarkmiðin. Í lögum og reglum Evrópusambandsins er fullt af tilskipunum og heildstæðum regluverkum yfir ákveðin svið sem taka á alls kyns hlutum eins og samkeppni, neytendavernd og umhverfismálum og þar koma fram einhvers konar meginmarkmið þar sem stefna Evrópusambandsins kemur fram sem heildstæð. Síðan eru á öðrum sviðum settar reglur og nánari reglur og ítarlegri reglur sem er svo vikið frá ef talið er að þær fari gegn meginmarkmiðunum eins og dæmi eru um. Noregur hefur einmitt lent í málaferlum og tapað þeim þar sem þeim er einfaldlega vikið til hliðar.