149. löggjafarþing — 111. fundur,  28. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[01:27]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka þingmanni fyrir spurninguna. Þetta er lykilspurningin: Hvernig stendur á því að menn eru tilbúnir að ganga svo langt að segja í rauninni að þessi ACER-stofnun skuli meira og minna sjá ESA fyrir leiðbeiningum eða hvernig skuli bregðast við? Sé það þannig, sem ég verð að viðurkenna að maður þarf að rifja aðeins upp, að fyrirmyndin sé sú sama og gerð var varðandi innleiðinguna á fjármálabixinu öllu saman, þá held ég að við höfum gert mistök þar. Ég held að hægt sé að segja það, að það sé þetta saman system. Það er óásættanlegt að mínu viti hvernig völd ACER eru skrifuð inn í ferlið sem ESA þarf að fara í gegnum varðandi ákvarðanatökur sínar.

Mig minnir að það sé í 5. lið 1. gr., þ.e. þeirrar samþykktar um hvaða ferli skuli fylgja, fjallað um það, eins og ég skil þetta. Nú verð ég að viðurkenna að lögfræðimálið er ekki mitt fyrsta mál, en þar segir að menn skuli ná sameiginlegri niðurstöðu, „mutatis mutandis“, held ég að það sé kallað, að það skuli vera skrifað inn í að menn skuli ná sameiginlegri niðurstöðu.

Ef menn ná ekki niðurstöðu þá er það EFTA-dómstóllinn sem kveður upp úr. Miðað við hvernig á að ganga frá hlutunum held ég að erfitt verði fyrir okkur að sækja rétt okkar. En það er algerlega að mínu viti vonlaust í svo stóru máli eins og með auðlindir landsins, að það sé ekki alveg klárt og kvitt hver fer með úrslitavald þar og það er ekki ásættanlegt að ESA hafi það. Ég held að við verðum að taka alvarlegt samtal um það hvort menn hafi gert mistök varðandi það að fara þessa leið.