149. löggjafarþing — 111. fundur,  28. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[01:57]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Frú forseti. Í rökréttu framhaldi af því sem hér var sagt er einn af þeim mörgu sérfræðingum sem hefur úttalað sig um þetta mál og er ekki ánægður með framgöngu meiri hlutans á Alþingi í málinu Eyjólfur Ármannsson lögfræðingur. Hann segir einmitt í umsögn sinni á bls. 2, með leyfi forseta:

„Virðist því eiga að innleiða í íslenskan rétt mikilvæga þjóðréttarlega skuldbindingu varðandi helstu náttúruauðlind íslands með reglugerð en endurskoða síðar — ef sæstrengur verður lagður — lagagrundvöll þeirrar reglugerðar og jafnframt að skoða þá hvort innleiðingin samræmist stjórnarskrá Íslands. Augljóst er að stjórnvöld eru sjálf í vafa um bæði lagagrundvöll fyrirhugaðar eigin innleiðingar þjóðréttarskuldbindingar og hvort hún samræmist stjórnarskrá.“

Þessi ágæti maður vill meina að stjórnvöld séu ekkert með það á hreinu hvort þeirra eigin gjörðir samræmist stjórnarskrá og hvort þær hafi lagagrundvöll. Nú spyr ég hv. þingmann sem er lögmenntaður: Hvað kallar maður það þegar yfirvald í þessu tilfelli eða landsstjórn ákveður að innleiða ákveðna gerð án þess að vera viss um að hún standist stjórnarskrá og án þess að vera viss um að hún hafi lagagrundvöll? Er ekki til lögfræðilegt heiti yfir svona hegðan?