149. löggjafarþing — 111. fundur,  28. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[02:23]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ef það er eitthvað sem sannar það sem við Miðflokksmenn höfum haldið fram, að innleiðing þessa pakka eigi að vera hafin yfir flokkapólitík, er það sú staðreynd að menn eins og Jón Baldvin Hannibalsson, Sighvatur Björgvinsson, Ólína Þorvarðardóttir, Tómas Ingi Olrich, Davíð Oddsson, ég gæti haldið áfram að telja út í hið óendanlega, Ögmundur Jónasson, Hjörleifur Guttormsson, Styrmir Gunnarsson, fólk sem hefur hreint ekki sömu lífsskoðanir og hreint ekki sömu stjórnmálaskoðanir, allt fólk sem hefur fylgst með EES-samningnum frá því að hann var gerður og samþykktur á sínum tíma, hefur uppi varnaðarorð um þennan pakka og þá vegferð sem ríkisstjórnin er á.

Auðvitað er með ólíkindum að ekki sé hlustað á það sem þetta fólk hefur fram að færa, t.d. menn með reynslu eins og Jón Baldvin Hannibalsson, fyrrverandi hv. þingmaður og hæstv. ráðherra, sem voru yfir þessu máli á sínum tíma þegar samningurinn var tekinn upp. Látum vera að þetta ágæta fólk hnýti í okkur og segi að við séum bara hópur ráðvilltra einstaklinga sem viti ekki hvað þeir eru að gera o.s.frv. Látum það allt liggja á milli hluta. En þegar menn taka ekki mark á fólki með þessa reynslu og þennan bakgrunn kemur að því sem ég sagði áðan að svo virðist sem ásetningurinn um að koma þessu máli í gegn sé svo einbeittur og sterkur að það er eins og menn taki ekki rökum. Og það er gríðarlega alvarlegt mál þegar menn taka ekki rökum.

Ekki langar mig og ég veit að engan hér inni langar að vera í þeim sporum að geta bent seinna meir og sagt: Við sögðum ykkur þetta. Það er ekki það sem við erum að vinna (Forseti hringir.) með þessu sem við erum að gera núna. Við erum að vara við.