149. löggjafarþing — 111. fundur,  28. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[02:38]
Horfa

Frsm. minni hluta utanrmn. (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (M) (andsvar):

Herra forseti. Eins og hv. þingmaður nefnir réttilega vitum við ekki hvar þetta endar í þeim skilningi að við vitum ekki hversu margir orkupakkarnir verða. Þó höfum við ekki bara vísbendingar heldur ágætisútlistun á því hvert stefnt er og það má Evrópusambandið eiga, umfram til að mynda ríkisstjórn Íslands, að það er með yfirlýst markmið. Það er með markmið og framtíðarsýn um hvert það stefnir. Auðvitað greinir menn á um hvort sú framtíðarsýn sé æskileg fyrir Evrópu eða ekki. Ég hef efasemdir um það en aðrir kannski síður.

Stefnan er þó til staðar og birtist ekki hvað síst í orkumálum sem, eins og ég hef nefnt áður, er annað af tveimur og jafnvel mikilvægasta framtíðarmarkmið Evrópusambandsins, þessi sýn í orkumálunum, sérstaklega í ljósi þess hversu mikil áhersla er lögð á loftslagsmálin og aukinn aðgang að endurnýjanlegum orkugjöfum.

Við getum gert okkur í hugarlund hvað er í vændum og svo sjáum við þróunina með til að mynda þeim breytingum sem hv. þingmaður nefndi og þessum fjórða orkupakka. Við sjáum að það er allt til þess fallið að staðfesta það sem mann hafði grunað, að hvort sem orkupakkarnir verða á endanum fimm, sex, sjö eða tíu miða þeir allir að því að auka miðstýringarvald Evrópusambandsins í orkumálum og þar með talið vald stofnana sambandsins til að knýja á um að sú þróun eigi sér stað og verði í raun ofar þjóðríkjunum varðandi þá framkvæmd, þ.e. hafi vald yfir löndunum umfram það sem ríkisstjórnir hvers lands fyrir sig geta hlutast til um.