149. löggjafarþing — 111. fundur,  28. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[02:48]
Horfa

Frsm. minni hluta utanrmn. (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (M) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þingmaður orðaði það sem svo að hætta væri á að við soguðumst inn í ákveðið ferli. Ég held að það sé akkúrat málið. Í þessu felst hætta á að við sogumst inn í ferlið. Það verður eflaust mjög sterkur sogkraftur sérstaklega á þessu sviði vegna mikilvægis orkumála almennt, orka er náttúrlega grundvallaratriði í öllum rekstri samfélaga, en einnig vegna þess að loftslagsmálin eru slíkt forgangsverkefni að menn munu ekki leyfa nein undanbrögð þegar Evrópusambandið telur sig hafa tækifæri til að auka aðgang sinn að umhverfisvænni orku. Hvergi er eins hátt hlutfall af slíkri orkuframleiðslu og hér á Íslandi.

Hv. þingmaður talar um að við gerum ekki nóg af því að horfa fram í tímann hér á landi í samanburði við margar aðrar þjóðir og ég held að það sé alveg rétt. Hv. þingmaður nefndi líka skort á heildarsýn. En þetta fer saman að mínu mati og helst í hendur. Það skortir bæði langtímasýn og heildarsýn í aðgerðum ríkisstjórnarinnar í þessu máli og raunar í svo mörgum öðrum. Ekki aðeins líta menn fram hjá þeim tækifærum sem eru til staðar til að segja fyrir um hvert þróunin muni leiða, og nægir að nefna fjórða orkupakkann sem menn hafa stungið undir stól fram að þessu, heldur bætist við að viljandi er reynt að fresta álitaefnum eins og þeirri stóru spurningu hvort þessi innleiðing standist yfir höfuð stjórnarskrána. Menn leitast við að fresta því að svara þeirri spurningu.