149. löggjafarþing — 111. fundur,  28. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[03:47]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka þingmanninum fyrir ræðuna. Hann fór ágætlega yfir grein sem fyrrverandi hv. þingmaður, Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, hafði sett á blað. Ólína er, eins og við vitum, kjarkmikill skörungur og þó að við höfum ekki alltaf verið sammála í pólitík virði ég hana svo sannarlega fyrir að fylgja mjög fast eftir sínum skoðunum. Ég tek ofan fyrir slíku fólki.

Ég held að sú mynd sem þarna er dregin upp sé býsna sönn og rétt af því andrúmslofti sem menn vilja gjarnan teikna upp, ekki síst af þeim sem þeir eru ósammála. Það eru til ýmis önnur skrif eftir meinta fræðimenn í þessum málum sem eru á svipaðan hátt tengdir einstaklingum í Miðflokknum eða forystumönnum hans. Hins vegar þýðir ekkert að kvarta yfir því, það er bara hlutur sem við verðum að ganga í gegnum. Það er mjög gott þegar reyndir einstaklingar í þjóðfélagsumræðu og stjórnmálum sjá það eins og fyrrverandi hv. þingmaður, Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir.

Þetta er nefnilega lykilspurning og ég veit ekki hvort hv. þingmaður getur svarað henni. Ég ætla að spyrja hérna að öðru og geyma hina. Hvers vegna í ósköpunum erum við að samþykkja þennan þriðja orkupakka ef hann skiptir engu máli fyrir Ísland? Ef maður á að trúa þeim sem eru fylgjandi pakkanum eru þetta smávægilegar breytingar á Orkustofnun. Við þurfum ekki orkupakka til að breyta því. Við getum breytt þessum lögum til samræmis ef okkur sýnist svo.