149. löggjafarþing — 111. fundur,  28. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[04:51]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Auðvitað er það sanngjörn og eðlileg krafa. Ég geri kröfu um að hlutir eins og þessir séu metnir þannig að eitthvað vitrænt sé til til að auðvelda okkur að taka afstöðu til næstu skrefa.

Það virðist samt sem áður vera búið að taka ákvörðun hjá stjórnarflokkunum um að setja engin ný gögn á borðið að eigin frumkvæði, verða ekki við neinum óskum um nýjar upplýsingar frá okkur efasemdarmönnunum og líta algjörlega fram hjá gögnum sem beinlínis banka upp á hjá ríkisstjórnarflokkunum, eins og t.d. um nýsamþykktan fjórða orkupakka frá ráðherraráðinu.

Allt ber þetta að sama brunni. Málið virðist of sársaukafullt fyrir ríkisstjórnarflokkana til að þeir treysti sér til að fresta því inn í haustið og þurfa þar með að taka það upp aftur og færa rök fyrir því og tala fyrir því.

Maður hefur ákveðna samúð með þingmönnum sem eru í þeirri stöðu að þurfa að tala fyrir máli sem þeir hafa enga sannfæringu fyrir og eru jafnvel beinlínis á móti. Það kæmi mér mjög á óvart ef sú umræða sem við höfum staðið fyrir varðandi fyrirvarana og hversu haldlitlir þeir eru líklega hefur ekki stuðað neinn þeirra þingmanna sem litu á fyrirvarana sem kjarnaástæðu fyrir því að skipta um skoðun. Það er hluti af því sem við munum næstu daga þurfa að hamra á til að ná í gegn.