149. löggjafarþing — 111. fundur,  28. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[05:28]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Frú forseti. Þetta er sanngjörn spurning hjá fyrrverandi ráðherra, hvers vegna ástæða sé fyrir þingið að verja tíma sínum í mál sem engu skiptir, eins og uppleggið er hjá mörgum. Það sætir nokkurri furðu hversu mikil áhersla er lögð á að berja þetta mál í gegn með öllum ráðum sem tiltæk eru. Ég held að þau sjónarmið sem komu fram í tilvitnaðri grein varðandi fyrirvarana og yfirráð yfir orkuauðlindinni og þau öll séu ekki í samræmi við þær staðhæfingar að áhrifin séu engin á nokkurn skapaðan hlut. Ég minni bara á að eftir að ítrekað var gengið eftir því að hæstv. utanríkisráðherra svaraði spurningu minni sl. föstudag um hvaða áhrif málið hefði á hagsmuni heimilanna, sem sagt einstaklingsmarkaðinn, var það eina sem hæstv. ráðherra tilgreindi að eftirlitshlutverk Orkustofnunar yrði eflt, það væru miklir hagsmunir fyrir heimilin. Mér þótti það svar hálfgert þunnildi.

Er eitthvað, að þeirri staðhæfingu virtri að málið hafi engin áhrif, sem útskýrir það í huga þingmannsins hvers vegna gengið er jafn hart fram og raunin er í málinu?