149. löggjafarþing — 111. fundur,  28. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[05:46]
Horfa

Bergþór Ólason (M):

Frú forseti. Það er óljóst hvernig fram vindur. Við sjáum til. Ég ætla að halda áfram þar sem ég hvarf frá í síðustu ræðu minni þar sem ég var að fjalla um útboðsskyldu sem ESA virðist sækja á um að verði viðhöfð hjá þeim ríkjum sem falla undir Eftirlitsstofnun EFTA. Held ég þá áfram með ræðu mína.

Þetta útboðsferli er eins ólýðræðislegt og hugsast getur. Það er ekki nokkur leið fyrir almenna raforkunotendur á Íslandi, sem jafnframt eru eigendur virkjananna og virkjunarleyfa, að sætta sig við að þessi kaupahéðinsstefna með virkjunarleyfi sé innleidd á Íslandi án þess að stefnumótandi ákvörðun um slíkt sé tekin í nokkrum stjórnmálaflokki, hvað þá á Alþingi. Þetta er einmitt það atriði sem við Miðflokksmenn höfum verið að gagnrýna hér, að orkustefnan liggur ekki fyrir, sem ætti auðvitað ef allt væri eðlilegt að liggja fyrir áður en innleiðing orkupakka þrjú og fjögur kæmi til skoðunar.

Þetta er forsmekkurinn að því sem búast má við eftir innleiðingu orkupakka þrjú hér á landi þótt hann komi ekki beinlínis við sögu í því máli sem snýr að útboðskröfum ESA.

Í Noregi var það almennt og óumdeilt sjónarmið að með því að aflétta hinum stjórnskipulega fyrirvara á orkupakka þrjú væri Stórþingið að samþætta norska raforkukerfið rækilega við raforkukerfi ESB-landanna og að undirgangast fyrir hönd Noregs þá tækni- og viðskiptaskilmála sem gilda á hinum sameiginlega ESB raforku- og gasmarkaði og eru t.d. útlistaðir í reglugerð 713/2009 í orkupakka þrjú. Hérlendis er hins vegar þrætt fyrir að nokkuð slíkt eigi sér stað og við það er beitt því sem fyrrverandi formaður Sjálfstæðisflokksins og núverandi áhrifamaður í Viðreisn hefur kallað lofsverðar blekkingar. Það er skákað í því skjólinu að enginn millilandatenging sé enn við íslenska raforkukerfið og boðuð lagasetning sem bannar undirbúning á sæstreng hérlendis af hálfu Landsnets án samþykkis Alþingis.

Þetta eru pótemkintjöld og gagnslaus fyrirætlun því Evrópurétturinn hefur forgang umfram hinn íslenska þegar ágreiningur verður og hann getur orðið strax eftir innleiðingu orkupakka þrjú og uppsetningu þessara meintu varnagla. Aðferðin brýtur nefnilega í bága við sjálfan EES-samninginn, 7. gr. Það er ekki nóg að fá pólitískar yfirlýsingar frá orkukommissar ESB, sem er á förum, og tveimur EFTA-fulltrúum í sameiginlegu EES-nefndinni, því hagsmunaaðilar geta kært þann galla við innleiðingu orkupakka þrjú að hún sé gerð óvirk að hluta með banni Alþingis við lagningu aflstrengs til Íslands. Hvers vegna halda menn að norska ríkisstjórnin hafi enn ekki sett umsamda fyrirvara stjórnar og stjórnarandstöðu við orkupakka þrjú í lagabúning til framlagningar í Stórþinginu eins og ríkisstjórnin lofaði áður en Stórþingið samþykkti orkupakka þrjú?

Upp á samhengi hlutanna ætla ég að láta staðar numið hér og halda áfram með annan hluta þessarar ræðu minnar í næstu ræðu.