149. löggjafarþing — 112. fundur,  28. maí 2019.

störf þingsins.

[10:40]
Horfa

Njáll Trausti Friðbertsson (S):

Herra forseti. Það var ánægjulegt að fá tækifæri til að vera staddur á Akureyrarflugvelli í gær þegar flug á vegum hollensku ferðaskrifstofunnar Voigt Travel og flugfélagsins Transavia hófst frá Rotterdam til Akureyrar. Þetta var fyrsta flugið af 16 sem flogið verður í sumar.

Á kynningarfundi í Flugsafninu á Akureyrarflugvelli í gærmorgun tilkynnti framkvæmdastjóri Voigt Travel einnig að nú hæfist sala á ferðum á vegum ferðaskrifstofunnar næsta vetur. Þar er um að ræða ferðir sem hefjast 14. febrúar á næsta ári og standa fram í mars, samtals átta ferðir. Þá verður flogið á milli Amsterdam og Akureyrar. Verður spennandi að fylgjast með því verkefni. Þar er góð viðbót við vetrarflug Superbreak síðustu tvo vetur. Hér er um að ræða góða og mikilvæga viðbót sem styrkja mun ferðaþjónustuna á Norðurlandi og reyndar á mun stærra landsvæði. Það er þekkt staðreynd að Hollendingar eru í hópi þeirra þjóða sem dvelja hvað lengst á Íslandi í heimsóknum sínum til landsins og fara víða um landið.

Hér er einnig rétt að minnast á mikilvægi Flugklasans Air 66N í öllu þessu ferli. Hann starfar undir hatti Markaðsstofu Norðurlands. Starf klasans hefur borið mikinn árangur á síðustu misserum og er mikilvægt að það öfluga starf sem unnið er á vegum Air 66N haldi áfram.

Ég vil nota tækifærið og hrósa starfsfólki Markaðsstofu Norðurlands fyrir þennan áfanga og það mikla og góða starf sem unnið er á vegum markaðsstofurnar. Takk fyrir góða vinnu.