149. löggjafarþing — 112. fundur,  28. maí 2019.

störf þingsins.

[10:42]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Þann 4. maí sl. var ég á landssambandsfundi Sjálfsbjargar, landssambands hreyfihamlaðra, og með leyfi forseta ætla ég að lesa upp ályktun um kjaramál:

„Landsfundur Sjálfsbjargar, landssambands hreyfihamlaðra, haldinn 4. maí 2019, skorar á Alþingi Íslendinga allra að afnema nú þegar krónu á móti krónu skerðinguna og fara að eigin lögum með tilvísan til 69. gr almannatryggingalaga, en að þessu sinni afturvirkt, eins og á við um kjör alþingismanna sjálfra.

Nýsamþykktur lífskjarasamingur gildi fyrir alla, þar með talið öryrkja. …

Samtökin minna þó á að það er enn ein niðurlægingin í garð öryrkja af hendi stjórnvalda að þurfa ítrekað að bíða eftir sínum kjarabótum, marga mánuði eftir að laun og vísitala hafa hækkað tekjur hjá öðrum hópum samfélagsins …

Til að örorkulífeyrisþegar geti bæði bætt sín kjör og eftir atvikum fótað sig aftur á vinnumarkaði, er afnám núverandi framfærslu uppbótar, og þar með krónu á móti krónu skerðingar, lykilatriði í því sambandi.“

Fram undan er skelfingardagurinn mikli, skelfingardagur fólks sem lifir á lífeyri öryrkja og eldri borgara, skelfingardagurinn þegar Tryggingastofnun sendir út skerðingarreikninga sína, skerðingar á fólk sem lifir á 212.000 kr. á mánuði eða undir, og skerðir það þannig að það á ekki til matar, skerðir það, ekki núna í ár, ekki síðasta ár heldur líka næsta ár. Þetta er fólk sem hefur ekkert gert af sér annað en að veikjast, slasast eða eldast, fólk sem skilað hefur sínu til þjóðfélagsins, eldri borgarar og öryrkjar sem eiga kröfu á að hætt verði að sparka í það fjárhagslega séð með ótrúlegu ofbeldi þannig að það getur ekki staðið undir eðlilegum framfærslukostnaði heimilisins.