149. löggjafarþing — 112. fundur,  28. maí 2019.

störf þingsins.

[10:55]
Horfa

Ásmundur Friðriksson (S):

Virðulegi forseti. Þær fréttir eru að berast að ný Vestmannaeyjaferja hafi verið leyst úr haldi í Póllandi og haldi heim á leið fljótlega. Nýr Herjólfur er fjórða nýsmíðin á ferju fyrir Vestmannaeyinga en sá fyrsti kom í desember árið 1959. Það fylgja auðvitað miklar væntingar þegar ný ferja, fyrsta rafmagnsferjan, fyrsta stóra rafmagnsskipið á Íslandi, kemur væntanlega til heimahafnar um miðjan næsta mánuð. Það eru líka bundnar miklar vonir við það að ný ferja muni auka nýtingu Landeyjahafnar sem hefur náttúrlega verið langt frá þeim væntingum sem til hennar voru gerðar. Það er mikilvægt að við fylgjumst með því hvernig ný ferja eykur þá nýtingu og hvort samspil hafnarinnar og hennar muni bæta samgöngur við Vestmannaeyjar.

Ég hef rætt það við hæstv. samgönguráðherra að þessu eftirliti verði sérstaklega fylgt vel eftir og að menn verði fljótir að grípa inn í ef þetta gengur ekki eins og við vonumst eftir. Auðvitað fylgja þó allar góðar kveðjur nýju skipi. Skipstjórnarmenn hafa sagt mér að stjórnhæfni þessa nýja skips sé mikil og góð. Skrúfubúnaður er þannig útbúinn að skipið rásar ekki mikið, reyndar bara mjög lítið, og öll smíði á skipinu er til mikillar fyrirmyndar.

Þessi samgöngubót kemur í stað gamla Herjólfs sem er búinn að sigla í 27 ár og gegna góðu hlutverki úti í Vestmannaeyjum við siglingar fyrir Eyjamenn. Það verður mikil eftirsjá í því fallega og mikla skipi sem hefur sinnt Eyjunum. Hann mun áfram um sinn verða til taks í Vestmannaeyjum ef eitthvað ber út af en í framtíðinni munum við sjá betur hver þátttaka hans í samgöngum á Íslandi verður.