149. löggjafarþing — 112. fundur,  28. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[12:22]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Það mætti mjög hátt skrifaður lagamaður á fund utanríkismálanefndar sem ég hafði tækifæri til að sitja og sagði aðspurður að það yrði ekki hald í fyrirvörum, þeir væru ætlaðir til heimabrúks.

Herra forseti. Ég nefndi nokkra þætti sem ég tel alveg nauðsynlegt að fjallað sé um með ítarlegum hætti af hálfu þeirra sem bera ábyrgð á þingsályktunartillögunni. Í fyrsta lagi þurfa þeir að útskýra hvað liggur á í málinu. Af hverju þarf að afgreiða það með mörgum ósvöruðum spurningum í maí? Þegar þetta mál var ekki komið fram var haft eftir ráðherra í fjölmiðlum, einum af þeim ráðherrum sem hvað mesta ábyrgð bera á málinu, að þess mætti vænta kannski vorið 2019 eða haustið 2019. Þá virtist ekki liggja svo mikið á.

Í annan stað er alveg nauðsynlegt að það liggi fyrir upplýsingar um fjórða orkupakkann þannig að hægt sé að meta orkupakkana í einu lagi. Hann mun vera 1.000 síður frá skriffinnunum í Brussel.

Svo ég hlaupi yfir fleiri spurningar: Af hverju má ekki bíða eftir þeim fréttum sem hafa verið boðaðar af vettvangi stjórnlagadómstóls Noregs 23. september þar sem verður fjallað um fyrirvarana átta sem voru gerðir þar í landi og stjórnarskrárvanda sem þar var uppi líkt og við höfum verið að glíma við hér? Og loks vantar alla greiningu á þeim fyrirætlunum sem hafa verið opinberaðar í frétt The Times í gær og sem sagt var frá í íslenskum fjölmiðlum (Forseti hringir.) sömuleiðis um áform breskra fjárfesta um að leggja hingað sæstreng.