149. löggjafarþing — 112. fundur,  28. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[12:24]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Forseti. Ég þakka þingmanninum fyrir ræðuna. Mér sýndist ég sjá á vefsíðunni viljinn.is að þar hafi menn náð sambandi við umboðsaðila þessa breska fyrirtækis hér á landi og náð að draga hann í viðtal. Það er ágætt að það sé komið algerlega í ljós að þetta fyrirtæki er hér með starfsmenn á Íslandi til að vinna að þessu fyrir sig jafnt og þeir vinna að þessu í Bretlandi, þannig að við skulum ekkert halda neitt annað en að það sé þrýstingur á báðum stöðum fyrir að þetta verkefni verði að veruleika.

Mig langar hins vegar að gleðja hv. þingmann með því að ég tók eftir því á vefsíðu Ríkisútvarpsins að um orkupakkamálið var fjallað að ég held í gær í Krakkafréttum. Það er spurning hvort sú umfjöllun hafi verið í stíl við umfjallanir um pólitík sem hafa t.d. birst í þættinum Stundin okkar, þar sem menn hafa aðeins notað tækifærið og verið með pólitískan áróður í þeim barnaþætti. Ég tek fram að ég hef ekki séð Krakkafréttir, ég horfi eins lítið og ég get á þetta og þá ekki bara Krakkafréttirnar. En ég held að það sé mjög mikilvægt að halda því til streitu að hvetja þennan rándýra ríkisfjölmiðil um að fara dýpra ofan í málið. Það hafa vissulega verið einhverjir viðtalsþættir en það þarf að gera meira, myndi ég segja.

Hv. þingmaður fór yfir nokkrar spurningar í sinni ræðu og á eflaust fleiri eftir. Hann kom einmitt inn á í lokin það sem ég hef verið að fjalla um og tel mikilvægt, þ.e. samspil orkupakkanna allra og framtíðarmúsíkina í því. Hvernig geta menn réttlætt það að fara í gegnum þessa umræðu án þess að skoða heildarmyndina?

Mig langar til að spyrja hv. þingmann hvort við getum vænst þess að menn muni setjast niður t.d. með okkur þingmönnum Miðflokksins og segja: Það (Forseti hringir.) er kominn tími til að við skoðum heildarmyndina. Við skulum gera hlé á þessari umræðu.