149. löggjafarþing — 112. fundur,  28. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[13:54]
Horfa

Anna Kolbrún Árnadóttir (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni kærlega fyrir ræðuna. Hann fjallaði töluvert mikið um það sem gæti gerst í framtíðinni og ég vil byrja á því að þakka öllum þeim sem hafa sent okkur góðar kveðjur og hvatt okkur áfram. Það er eiginlega svolítið merkilegt að það sé á einhvern máta fólk úti í bæ, ef ég get leyft mér að nota það orðalag, sem vekur okkur til umhugsunar um það sem mun eiga sér stað með innleiðingu orkupakka þrjú. Við tökum oft fyrir gerðir Evrópusambandsins og þær fljóta nærri því þegjandi og hljóðalaust í gegnum þingið þannig að við erum mjög þakklát fyrir að hafa verið vakin til að skoða þetta mál betur en að var stefnt.

Það sem ég velti fyrir mér varðar orkupakka fjögur og þá sýn sem gæti birst í kjölfarið á innleiðingu orkupakka þrjú er hvort hv. þingmaður gæti dregið upp einhvers konar sviðsmynd þegar við verðum orðin hluti af hinum sameiginlega evrópska rafmagnsmarkaði, orkumarkaði. Hvað þá? Hvað mun fylgja í kjölfarið? Eins og ég sé þetta hefur gengið nokkuð hratt að innleiða orkupakka þrjú í Noregi og nú er orkupakki fjögur þar næstum kominn inn þannig að ég spyr hv. þingmann að þessu.