149. löggjafarþing — 112. fundur,  28. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[14:40]
Horfa

Anna Kolbrún Árnadóttir (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Sigurði Páli Jónssyni kærlega fyrir. Það er ljóst að það hefur engin kynning farið fram á þessu máli, alla vega ekki kynning fyrir þá sem helst þyrftu á kynningu að halda, þ.e. almenning í landinu. Meiri hluti þjóðarinnar er samkvæmt skoðanakönnunum á móti innleiðingu orkupakka þrjú. Ef það yrði farið í almennilega kynningu á málinu öllu saman þá væri hugsanlega hægt að hafa þar einhvern grunn til að stíga áfram ákveðið í þessu stóra máli sem þetta er. Það er líka umhugsunarvert að velta fyrir sér mögulegu valdframsali. Eins og er segir önnur fylkingin nei og hin segir jú og síðan er ekkert rætt meira um það. Það er engin dýpt tekin í því hvað fylkingar eiga við þrátt fyrir að við höfum ítrekað óskað eftir svörum um það.

Síðan má velta fyrir sér lögformlegum fyrirvörum. Fyrirvararnir eru settir fram á pólitísku máli, með viljayfirlýsingum og fréttatilkynningum og hvað þetta nú allt kallast. En þeir eru ekki festir í lög. Það eitt ætti að segja okkur að bíða eftir Noregi og bíða a.m.k. til haustsins til að sjá hvað verður um þá fyrirvara sem settir voru þar og hvort það verði á einhvern máta álitið ólögmætur gjörningur, ekki hafi verið farið eftir réttri leið sem við höfum líka rætt hér, sem er að vísa málinu til sameiginlegu EES-nefndarinnar.