149. löggjafarþing — 112. fundur,  28. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[15:12]
Horfa

Sigurður Páll Jónsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka þingmanninum fyrir þessa fræðslu um kannanir. Ég er bara saklaus kórdrengur frá Stykkishólmi þannig að ég er ekki mjög góður í skoðanakönnunum eða tilurð þeirra. Ég vil trúa því að þær varpi ljósi á það hvað fólki finnst og mér finnst einhvern veginn að það geti bara verið rétt, en alveg ábyggilega er það ekki svo einfalt.

Eins og ég sagði áðan, fólk er mjög tvístígandi um hvaða afstöðu það á að taka af því að miklu meira er um spurningar en svör. Við sem höfum goldið varhuga við þessu höfum verið að auka við spurningarnar og okkur vantar svör. Hérna er þingsalurinn nánast tómur nema við Miðflokksmenn erum hér og viljum fá svör frá ríkisstjórninni og þeim sem eru fylgjandi málinu við ýmsum spurningum, en þau koma ekki. (Forseti hringir.) Þannig að seinni spurningin er þá bara í þá átt: (Forseti hringir.) Er ekki nauðsynlegt að við fáum þau svör sem við höfum verið að spyrja um?