149. löggjafarþing — 112. fundur,  28. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[15:25]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni ræðuna. Hann kom víða við og margt athyglisvert var í hans ræðu. Ég vil byrja á því að nefna Noreg sem hann fjallaði um. Þá er athyglisvert að rifja upp orð álitsgjafans sem utanríkisráðuneytið og utanríkisráðherra fengu til liðs við sig í þessu máli, Carls Baudenbachers, fyrrverandi dómara við EFTA-dómstólinn og núverandi ráðgjafa á þessu sviði.

Álitsgerð Carls Baudenbachers er að sjálfsögðu athyglisverð fyrir margra hluta sakir. Hún er fyrst og fremst lögfræðileg en hún hefur hins vegar pólitískan vinkil sem er athyglisverður. Hann segir í sinni álitsgerð að Norðmenn líti á Ísland sem hreint aukaatriði í EES-samningnum. Margt virðist benda til þess, herra forseti, að Norðmenn séu að beita íslensk stjórnvöld verulegum þrýstingi til þess að samþykkja þennan orkupakka. Baudenbacher segir meira að segja að Íslendingum sé í raun og veru skylt að samþykkja allt sem Norðmönnum dettur í hug, eins og hann orðar það, þegar kemur að EES-samningnum. Það er náttúrlega alvarlegt ef rétt reynist.

Miðað við það sem hv. þingmaður fór í gegnum langar mig að spyrja hann hvort hann skynji það (Forseti hringir.) á því sem hann hefur kynnt sér að hugsanlega séu Norðmenn að beita Íslendinga þrýstingi til að samþykkja orkupakkann.