149. löggjafarþing — 112. fundur,  28. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[15:36]
Horfa

Sigurður Páll Jónsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Önnu Kolbrúnu Árnadóttur fyrir andsvarið. Hún kom inn á ályktanir aðalfunda flokka sem eru nú í ríkisstjórn og þær eru algjörlega á skjön við framkvæmd málsins og hvaða leið þeir fara í þessu máli. Hún tók fram þrjá flokka, Sjálfstæðisflokk, Framsóknarflokk og Vinstri græna.

Maður hefur hugsað um hvað mönnum gangi til. Þeir segja að það sé búið að sannfæra þá með fyrirvörum um að málið sé skothelt. Þá hefur það komið fram að þessir fyrirvarar eru nánast bara til heimabrúks. Þeir eru einhliða og standast enga skoðun og eru líka í einhverri hulu, ekki gott að finna þá.

Jú, frestun er lágmarkskrafa okkar sem andæfum þessu máli, frestun alla vega fram á haust. Það kom fram í andsvörum áðan að það væri rétt að fá frestun fram yfir næstu alþingiskosningar. Þá gæti þjóðin, þeir sem hafa kosningarrétt, kosið eftir því hvaða skoðanir hver flokkur hefur á þessu máli. En eins og ég sagði áðan er fólk ekkert sérstaklega skotið í pólitík í dag. Það vill meira heyra staðreyndir.