149. löggjafarþing — 112. fundur,  28. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[15:50]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Birgi Þórarinssyni fyrir andsvarið. Í þessu samhengi ætla ég að leyfa mér að segja að sporin hræða. Það er ástæða fyrir því.

Ef við horfum á þá stjórnmálamenn sem nú hafa stigið, að megninu til, af út af þeim vettvangi, stjórnmálamenn sem hafa verið á þingi sem alþingismenn eða ráðherrar, flestir ráðherrar í þeim hópi sem ég er með í huga, ef við horfum á þann hóp fyrrverandi ráðherra sem tók þátt í málum er sneru að innleiðingu orkupakka eitt og tvö, og sumir í tengslum við EES-samninginn á sínum tíma, hefur viðsnúningur orðið í afstöðu mjög margra þeirra fyrrverandi ráðherra. Langflestir þeirra sem blanda sér í umræðuna um innleiðingu þriðja orkupakkans hafa fært sig yfir í hóp efasemdarmanna. Það er raunar í fljótu bragði ekki nema einn, hugsanlega tveir, sem hafa fært sig yfir á þann arminn að styðja við innleiðingu þriðja orkupakkans. Langflestir, jafnvel úr gömlu krataflokkunum, hafa snúið sér á þá sveifina að menn skuli fara varlega, sporin hræði og hér séum við að höndla með mál sem sé ekki forsvaranlegt að keyra í gegn með þeim hætti sem ríkisstjórnin ætlar sér greinilega að reyna að gera. En það er ekki útséð með það enn sem komið er.

Ég held að þetta svari vonandi, a.m.k. að hluta til, fyrirspurn hv. þingmanns.