149. löggjafarþing — 112. fundur,  28. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[16:05]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Þorsteini Sæmundssyni fyrir andsvarið. Ég gef mér að allir þeir þingflokkar sem styðja innleiðingu þriðja orkupakkans heyri í stuðningsmönnum sínum, sínu baklandi. Vinstri grænir held ég að kalli það grasrót, Sjálfstæðismenn kalli það baklandið. Ég veit ekki hvað Framsóknarmennirnir kalla þetta því að þeir virðast í augnablikinu taka þátt í Íslandsmeistaramóti í þagnarbindindi. En miðað við þann tón sem berst til okkar í Miðflokknum, og úr öllum áttum, það eru ekki bara stuðningsmenn Miðflokksins — hvað mig varðar hefur samband við mig fólk sem biður fyrir kveðju, segir að það sé svo sem engar sérstakar líkur á því að viðkomandi muni kjósa Miðflokkinn í næstu kosningum en biður okkur um að halda áfram enn um sinn og sjá hvort þeirra menn taki ekki sönsum.

Nú ætla ég að reyna að svara. Ég held að ég sé með lausnina á því sem hv. þm. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson spurði um í andsvari á undan hv. þm. Þorsteini Sæmundssyni. Ég held að lausnin fyrir alla þingmenn stjórnarflokkanna, ég reikna með að þingmenn Samfylkingar og Viðreisnar verði svekktir, sé sú að taka málið af dagskrá, ekki bara til að hleypa öðrum málum að og klára síðan umræðu um það að því loknu heldur fresta því til haustþingsins. Eins og allir vita er engin tímapressa á þessu máli. Ég held að öllum liði betur með því að (Forseti hringir.) gefa málinu rýmri tíma til skoðunar.