149. löggjafarþing — 112. fundur,  28. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[16:10]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M):

Hæstv. forseti. Ég brá mér aðeins frá í morgun og heyrði því ekki tímamótaræðu formanns Flokks fólksins sem tók nú upphaflega þátt í því með okkur Miðflokksfólkinu að andæfa þriðja orkupakkanum. En í morgun var eins og Flokkur fólksins hefði tekið sinnaskiptum í málinu. Formaður flokksins sagði að það væri ómögulegt að smáflokkar tækju Alþingi í gíslingu.

Miklir menn erum við, Hrólfur minn, stendur einhvers staðar.

En andóf okkar Miðflokksfólks í þessu máli er ekki bara „af því bara“ heldur er það vegna þess að ríflega meiri hluti þjóðarinnar er á móti þessu máli. Við höfum fengið hvatningu hvaðanæva að. Vegna þess að í eðli sínu er þetta ekki flokkspólitískt mál og á ekki að vera það. Þetta er miklu merkilegra mál en svo að það eigi að vera fast í einhverjum flokkslínum. En því miður hafa aðrir flokkar á þingi grafið skurð milli sín og þjóðarinnar og hanga á þeim skurðbarmi, þrátt fyrir að þjóðin sé að meiri hluta til á móti þessu máli.

Svo er náttúrlega spurning hvort Flokkur fólksins ætti hugsanlega bara að skipta um nafn því að ekki stendur hann með fólkinu í þessari baráttu, þó að hann hafi gert það í upphafi, en hann þraut örendið.

Einhvern veginn er það nú þannig, herra forseti, að þegar maður er í pólitík þarf maður að reyna að byggja upp úthald. Forseti þingsins er einmitt að kanna það núna hvaða úthald Miðflokkurinn hefur og er að komast að því smátt og smátt, á hverjum degi og hverri nóttu. En burt séð frá því sem fjölmiðlar hafa haldið fram, eins og ríkisfjölmiðillinn sem var með frétt frá Alþingi í morgun um töflu sem minnti svolítið á stigatöflu í Eurovision. Þar var tilgreint hversu margar ræður Miðflokksfólkið hefði haldið og í hversu margar mínútur en ekkert um innihaldið, ekki neitt, sem er mjög athyglisvert vegna þess að ég er alveg sannfærður um að fólkinu heima í stofu er alveg nákvæmlega sama hversu margar ræður við höfum flutt hvert og eitt eða hversu langar þær hafa verið. En ég er næstum því viss um að margt af því fólki langar að vita hvað við sögðum, ef það hefur misst af ræðunum.

En það eru auðvitað margir, eins og hæstv. forseti veit, sem fylgst hafa með þessari umræðu nætur og daga. Af þeim viðbrögðum að dæma sem við fáum frá því ágæta fólki virðist það vaka alveg þokkalega pent yfir umræðunni og ekki leiðast mjög augljóslega. Á meðan að menn láta sér ekki segjast í þessu máli og hlusta ekki á þjóðarviljann — og það er nú gott að hér er fyrrverandi blaðamaður og núverandi hv. þm., Kolbeinn Óttarsson Proppé, kominn í salinn; einu sinni var blað uppi á Þórsgötu sem talaði mikið fyrir þjóðina, var aldrei með neitt fylgi í kosningum en talaði alltaf fyrir þjóðina. En það getur vel verið að við höfum ekki haft mest fylgi í kosningum en við vitum þó alla vega að í þessu máli er vilji þjóðarinnar mjög skýr og við tölum inn í hann.

Menn hafa talað hér um það, t.d. hæstv. forseti, ekki sá sem nú situr heldur hæstv. forseti þingsins, að eitt af grundvallaratriðum þingræðisins sé að mál eins og þetta fái þinglega meðferð og atkvæðagreiðslu. Það er alveg rétt. Það er ein af grunnstoðum þingræðisins. En það er einn af grunnþáttum lýðræðisins að hlusta á meirihlutavilja fólks og reyna að heiðra hann og virða hann og fara eftir honum. Menn gera oft lítið úr almenningi, finnst mér, allt of oft, vegna þess að íslenskur almenningur er vel upplýst, fólk sem veit hvað það vill og veit hvað það vill ekki, herra forseti. Og það vill ekki þriðja orkupakkann.