149. löggjafarþing — 112. fundur,  28. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[16:42]
Horfa

Frsm. minni hluta utanrmn. (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (M) (andsvar):

Herra forseti. Í fyrsta lagi vil ég þakka hv. þingmanni kveðjurnar. Hamingjuóskirnar bæta að nokkru upp fyrir að hæstv. forseti skyldi líta fram hjá þessum tímamótum í kynningu sinni áðan. En ég vil líka þakka hv. þingmanni kærlega fyrir að mæta til umræðunnar og fara í þessa fyrirspurn. Þetta er nú eitt af því sem við höfum verið að bíða eftir. Það er hins vegar merkilegt að stjórnarliðar skuli láta stjórnarandstöðuþingmenn um það.

En ég má ekki eyða tímanum í óþarfa tal heldur snúa mér að því að svara spurningu hv. þingmanns. Hann nefnir umsagnir sem komu úr, ef ég man rétt, þremur áttum, einkum og sér í lagi varðandi stjórnarskráráhrif málsins. En á móti má veifa umsögnum annarra lögfræðinga sem komast að annarri niðurstöðu um þann þátt.

Það álit sem helst hefur verið litið til og ríkisstjórnin, alla vega hæstv. ráðherrann, byggir tillögur sínar á, lýsir verulegum efasemdum um það hvort að þessi innleiðing standist stjórnarskrá. Þess er getið sérstaklega í því áliti. Þetta er að sjálfsögðu álit Stefáns Más Stefánssonar og Friðriks Árna Friðrikssonar. Þar er þess getið sérstaklega að eigi að vera hægt að fresta vandanum, eins og ríkisstjórnin virðist vera að reyna að gera, verði lagalegi fyrirvarinn að vera þess eðlis að innleiðingin taki ekki gildi. En það er ekki sú leið sem ríkisstjórnin ætlar að fara. Hún er að innleiða.

Og ef við samþykkjum þriðja orkupakkann verður hann innleiddur nákvæmlega eins og hann leit út í sameiginlegu EES-nefndinni árið 2017.

Þorsteinn Pálsson, flokksbróðir hv. þingmanns, benti einmitt á þetta og kallaði þessa fyrirvara „lofsverðar blekkingar“.