149. löggjafarþing — 112. fundur,  28. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[17:19]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessar hugleiðingar og spurningar. Ég vil einnig koma að því í seinna svari að markmiðið með setningu þessarar löggjafar af hálfu Evrópusambandsins er auðvitað göfugt, það má ekki gleyma því. Markmiðið er að auka hlut endurnýjanlegra orkugjafa og draga jafnframt úr hlut hinna sem við flestöll viljum vera án, sérstaklega með tilliti til áhrifa þeirra á loftslag. Markmiðið er göfugt og ef þetta gengur vel munu raforkuframleiðendur, eðlilega, bara vegna verðsins, auka hlut endurnýjanlegra orkugjafa í sinni framleiðslu. Þeir munu leita eftir því að framleiða orkuna sem þeir selja á þennan hátt, þ.e. nota vindorku og fallorku fremur en kol eða kjarnorku einfaldlega vegna þess að þeir fá hærra verð fyrir hana. Þannig að markmiðið er göfugt og við megum ekki gleyma því.

Það sem ég var að leita eftir í fyrirspurn minni til hæstv. ráðherra voru áhrifin hér, hugsanleg áhrif. Það kemur fram t.d. í svari við einni af spurningum mínum til hæstv. ráðherra, sem var: Má búast við að verð á upprunaábyrgð hafi áhrif á raforkuverð innan lands og hvert er samhengið á milli þessara þátta? Spurningunni var svarað í nokkuð löngu máli og ég mun þá fremur kjósa koma að því í næstu ræðu minni.