149. löggjafarþing — 112. fundur,  28. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[17:22]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M):

Herra forseti. Ég vil í þessari ræðu minni koma aðeins inn á þær áskoranir sem blasa við Evrópusambandinu í orkumálum. Evrópusambandið má eiga það að það hugsar til framtíðar og áratugi fram í tímann ef ekki lengra. Þar skipta orkumálin sambandið verulegu máli. Sambandið hefur þurft að glíma við ýmis vandkvæði í þeim efnum. Þegar þjóðirnar frá Austur-Evrópu ganga í sambandið eru raforkumál í þessum löndum í miklum ólestri, Hefur sambandið markvisst unnið að því að reyna að samræma raforkukerfið í Evrópu og unnið að áætlun um framtíðina, auk þess sem lögð er rík áhersla á endurnýjanlega orkugjafa, orkuskipti og hreina orku.

Fram kemur í skýrslu framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, sem í lauslegri íslenskri þýðingu má segja að sé orkustefna fyrir Evrópu, sem má kannski segja að sé yfirskrift þessarar skýrslu í lauslegri íslenskri þýðingu, segir, með leyfi forseta:

„Orka er lífsnauðsyn fyrir Evrópu. Dagar ódýrrar orku virðast vera að baki. Áskoranir loftslagsbreytinga. Evrópa háð auknum innflutningi orku og hærra orkuverð er staðreynd og samtenging aðildarríkja Evrópusambandsins í orku eykst, eins og á mörgum öðrum sviðum. Orkuskortur í einu landi hefur strax áhrif á önnur.“

Áfram segir í skýrslu framkvæmdastjórnarinnar, með leyfi forseta:

„Evrópa verður að bregðast við núna í sameiningu til að koma á endurnýjanlegri öruggri og samkeppnishæfri orku.“

Síðan er rætt um sjálfbærni og öryggi framboðs, samkeppnishæfni, stefnumörkun í orkumálum Evrópu og aðgerðaáætlun.

Það er athyglisvert að lesa aðgerðaáætlunina. Ef ég vitna hér aðeins í skýrsluna hvað það varðar, með leyfi forseta, þá segir hér:

„Fyrsta skrefið er að aðildarríkin samþykki stefnumótandi framtíðarsýn og aðgerðaáætlun næstu þrjú árin með það að markmiði að mynda alþjóðlegt samstarf þróaðra ríkja, a.m.k. með það fyrir augum að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda árið 2020 um 30% og setja framlag til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda lofttegunda Evrópusambandsins 2020 um 20%. Þetta verður stutt með virku eftirliti, skýrslugjöf um framgang, svo og skilvirkni, og skipt á bestu starfsvenjum og áframhaldandi gagnsæi með reglulegri framsetningu framkvæmdastjórnarinnar, að uppfærðri stefnumörkun í orkumálum.“

Í þessari skýrslu — ég mun koma nánar inn á hana í ræðu minni á eftir, herra forseti, vegna þess að tíminn er knappur — er nokkuð ljóst að Evrópusambandið er að hugsa til framtíðar. Hér er verið að hugsa alveg til 2050. Í þeim efnum er hreina orkan afar mikilvæg og eiginlega lykilþáttur í þessu öllu saman. Því er þannig háttað í Evrópusambandinu að aðgangur að hreinni orku er mjög takmarkaður.

Þess vegna er EES-samningurinn mikilvægur Evrópusambandinu vegna þess að þar er aðgangur að hreinni orku í gegnum EES-samninginn, í gegnum orkupakkana og þátttöku EES-landanna, í samstarfi Noregs, Liechtensteins og Íslands. Þetta sýnir okkur að það er styttra en við höldum í það að hér verði lagður sæstrengur og við verðum þátttakendur í hinu sameiginlega markaðssvæði með því að færa Evrópu hreina orku.