149. löggjafarþing — 112. fundur,  28. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[17:32]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið og yfirferð yfir meginþætti orkustefnunnar sem birtist í skýrslunni til framkvæmdastjórnarinnar. Þar er margt áhugavert eins og hv. þingmaður kom inn á. Evrópa, Evrópusambandið, horfir til langrar framtíðar og markmiðin eru skýr, þ.e. að minnka losun gróðurhúsalofttegunda út í andrúmsloftið. Hvernig er það best gert? Við sjáum þetta eiginlega koma hingað til Íslands í formi tilskipana, fyrsta orkutilskipunin og önnur og svo þriðja. Við erum að ræða þriðju orkutilskipun Evrópusambandsins og við viljum senda hana aftur til sameiginlegu EES-nefndarinnar.

Ein af röksemdum stjórnarliða er að það sé of seint og við séum búin að innleiða hina pakkana og það gangi ekki að segja nei svona seint í ferlinu. En ég segi þá á móti: Nú er fjórða orkutilskipunin væntanleg og við höfum ekki séð hana hér, ekki ég alla vega. Þar eru enn þá frekari áætlanir um þessa framtíð eins og kemur fram í skýrslunni. Ég spyr hv. þingmann: Er ekki enn þá meiri ástæða til að stöðva núna og nýta okkur okkar samningsbundna rétt samkvæmt ákvæðum samningsins sem við erum aðilar að, eins og Evrópusambandið og EFTA-löndin? Við erum aðilar að þessum samningi og í samningnum er ákvæði um hvað beri að gera ef menn vilja fá undanþágu eins og við viljum klárlega gera og þjóðin vill gera, að fara til baka og óska eftir undanþágu sem þeir hafa tekið svo vel undir í viðtölum og eftir fundi og í útgáfu yfirlýsinga. Er ekki auðséð að þessa leið beri að fara?