149. löggjafarþing — 112. fundur,  28. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[18:33]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M):

Hæstv. forseti. Ég hef í ræðum mínum að undanförnu velt upp framtíðinni og framhaldinu á orkupakka þrjú, einnig orkupakka fjögur sem hefur litið dagsins ljós og búið að ganga frá af Evrópusambandinu. Hann fer nú í ferli sem er niðurnjörvað og ljóst hvernig er, bæði innan Evrópusambandsins og síðar gagnvart EFTA-ríkjunum sem eru aðilar að EES-svæðinu. Á sama tíma og þetta liggur fyrir erum við á Íslandi enn að fjalla um þriðja orkupakkann. Við höfum ákveðna fyrirvara, en teljum að pakkinn geti verið varasamur fyrir íslenska hagsmuni. Á sama tíma er sá fjórði orðinn ljós. Þess vegna finnst mér óskiljanlegt að þingmenn og ráðherrar skuli ekki vilja meta heildaráhrifin, sjá hvað það þýðir fyrir framtíðina að ef við samþykkjum orkupakka þrjú núna hvernig fjögur hefur áhrif á þær ákvarðanir sem við tökum í dag. Ég hef sagt að það sé ekki oft sem við fáum tækifæri til að sjá hver áhrifin verða á framtíðina, en við getum gert það núna.

Ég verð að viðurkenna að ég varð fyrir miklum vonbrigðum að sjá að hv. þm. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, segir í fjölmiðlum að hún líti svo á að þetta sé bara hver pakki fyrir sig. Orð hennar mátti skilja sem svo að þeim ætti ekki að blanda saman. Mér finnst mjög óábyrgt að tala með þeim hætti, segja fullum fetum að engu máli skipti hvað taki við í orkupakka fjögur ef við samþykkjum orkupakka þrjú, hvað af orkupakka þrjú leiði í fjórða orkupakka. Til dæmis varðandi fullveldi landsins, þróun raforkuverðs, framsal valds, heimildir eftirlitsstofnana o.s.frv. Er það virkilega svo að menn vilji ekki skoða heildarmyndina?

Ég ætla að leyfa mér að bæta við, ekki síst eftir orð hæstv. forsætisráðherra hér í dag sem virtist ekki upplýst um að einkaaðilar geta leitað og munu án efa, leggi þeir sæstreng eða vilji það, án þess að ríkið komi nokkuð nærri því og við reynum að banna þeim það, leita réttar síns.

Það kemur m.a. fram í áliti Stefáns Más Stefánssonar og Friðriks Árna Friðrikssonar Hirsts í neðanmálsgrein nr. 62, með leyfi forseta:

„Ekki má þó gleyma að hafni Orkustofnun umsókn fyrirtækis þar að lútandi gæti fyrirtækið snúið sér til ESA með kæru sem gæti endað með samningsbrotamáli gegn Íslandi. Slík staða gæti reynst Íslandi erfið.“

Þetta er akkúrat í samræmi við það sem hv. þm. Bergþór Ólason benti á í ræðustól þegar hann fjallaði um færslu á fésbókinni frá héraðsdómaranum Arnari Þór Jónssyni sem var að svara fullyrðingum hæstv. forsætisráðherra. Það er akkúrat þetta. Við erum ekki búin að fría okkur á neinn hátt frá því að málshöfðun sem þessi gæti orðið að veruleika. Þvert á móti erum við að taka — og það eru mín orð, ekki héraðsdómarans eða ráðherra — áframhaldandi stór skref inn í það að gera orkustefnu Evrópusambandsins og evrópskan orkumarkað að okkar. Er það það sem við viljum? Er það það sem ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur vill? Gera auðlindirnar á Íslandi og afrakstur þeirra, það sem við fáum út úr þeim, orkuna, að enn meiri verslunarvöru hjá Evrópusambandinu?

Ég hef velt því upp varðandi þróunina í orkupakka fjögur, m.a. í gær, enginn treysti sér til að koma upp og svara því, hvort orkupakki fjögur kalli á aukið valdaframsal. Verður gerður stjórnskipulegur fyrirvari þegar hann kemst, eftir margra mánaða ferðalag í gegnum eitthvert system, í sameiginlegu EES-nefndinni varðandi orkupakka fjögur? Af hverju er það? Af hverju eru líkur á því eða möguleiki?

Er ekki rétt að við könnum það í dag áður en við klárum það mál sem við erum með á borðinu? Því að þetta er ein samfella, hvort sem mönnum líkar það betur eða verr.

Mig langar að bæta við einni spurningu enn, sem ég hef ekki tíma til að velta upp svörum við. Mun Ísland þurfa að sækjast eftir undanþágum frá orkupakka fjögur? Hvernig verður þeim tekið ef við innleiðum orkupakka þrjú með sama glæsibrag og hraða og eins vel og við gerðum með orkupakka tvö sem var ein af forsendum þess að flestum okkar (Forseti hringir.) beiðnum um undanþágur var hafnað.