149. löggjafarþing — 112. fundur,  28. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[18:41]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Því er hægt að svara játandi, það er mögulega verið að gera, ekki síst ef við innleiðum hugmyndafræðina, markmiðin og stefnuna sem felast í orkupakka þrjú. Það hefur margoft komið fram að fyrirvarinn við sæstreng sem ríkisstjórnin setur er aðeins til heimabrúks, gildir bara fyrir okkur. Einhver ágætur fyrrverandi formaður Sjálfstæðisflokksins kallaði þetta, minnir mig, sjónhverfingar eða eitthvað slíkt. Sá maður er reyndar með áhugaverða grein í dag sem hann birtir á viljinn.is, sem væri sérstaklega gaman fyrir Sjálfstæðismenn að lesa.

Allt sem við gerum í dag mun mjög líklega hafa áhrif á þá meðferð og túlkun sem við fáum þegar kemur að orkupakka fjögur. Það er alla vega reynslan af fyrri innleiðingum varðandi orkumálin.

Við þurfum ekki að vera hissa á því að Evrópusambandið sé ekki endilega rosalega hresst með að láta okkur fá einhverjar undanþágur eða hlusta á það sem við höfum fram að færa þegar markmiðið er alveg augljóst, að búa til einn raforkumarkað þar sem þeir telja að Ísland geti skipt miklu máli, þ.e. skaffar umhverfisvæna orku inn á þann markað. Um það snýst stóra málið að sjálfsögðu.

Það sem verst er í því öllu er að á sama tíma og við tökum þau skref — við sjáum hvað næsta skref felur í sér, þ.e. orkupakki fjögur — þá höfum við ekki einu sinni stefnu til að vinna eftir. Við höfum ekki vel ígrundaða, útfærða, langtímaorkustefnu, hvernig við sjáum málin liggja fyrir Íslands hönd. Á sama tíma innleiðum við orkustefnu ESB-ríkjasambandsins, sem er ekkert endilega okkur í hag. Ég held reyndar að hún sé mjög andstæð hagsmunum okkar, ef menn nenna að kafa ofan í það.