149. löggjafarþing — 112. fundur,  28. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[18:43]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Gunnari Braga Sveinssyni fyrir svarið. Nú liggja fyrir — sem ég get sagt fyrir mig að hafa vakið undrun mína — viðbrögð þeirra sem styðja innleiðingu á grundvelli nálgunar hæstv. utanríkisráðherra og hæstv. iðnaðarráðherra. Ég vona að forseti fyrirgefi mér að ég kalli hæstv. iðnaðar-, nýsköpunar-, dómsmála- og ferðamálaráðherra iðnaðarráðherra í þessari umræðu. Það er ekki illa meint heldur meira til einföldunar. Það vita allir hvað verið er að fara þarna.

Það hefur vakið undrun mína að engin viðbrögð virðast hafa borist úr ranni stjórnarflokkanna við þeim fréttum að nú sé fjórði orkupakkinn fullsamþykktur af ráðherraráði Evrópuþingsins og þar með liggi lykilgögn fyrir varðandi það að sjá lengra inn í framtíðina en hefur verið mögulegt hingað til. Kann hv. þingmaður einhverjar skýringar á því hvað geti valdið því að þingmenn sjái enga ástæðu til að skoða hvorki meira né minna en fjórða orkupakkann?

Við erum að fjalla um þriðja orkupakkann. Býsna margar ræður, meira að segja á þeim tíma sem stuðningsmenn orkupakkans og innleiðingar hans tóku þátt í umræðunni, hafa margkomið inn á að það væri ósköp gott að geta séð hvað væri í fjórða orkupakkanum en það væri bara einhvers staðar í framtíðinni og við þyrftum að klára þetta. Nú liggur fjórði orkupakkinn fyrir. Hefur hv. þingmaður (Forseti hringir.) einhverja kenningu um það hvað orsakar að enginn stuðningsmanna innleiðingarinnar á þriðja orkupakkanum sjái ástæðu til að skoða fjórða orkupakkann?