149. löggjafarþing — 112. fundur,  28. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[18:55]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka þingmanni fyrir þetta andsvar. Ég ætla aðeins að fara til baka og taka undir það sem hv. þingmaður sagði í fyrra andsvari til að undirstrika að það er vitanlega forsetinn sem ákveður hvaða mál eru á dagskrá þingsins og getur því breytt henni léttilega og hleypt öðrum málum að meðan þetta mál þarf hugsanlega að ræða einhvers staðar eða kæla á einhvern hátt, annað eins hefur verið gert í þessum sal, svo að maður rifji það upp. Ég man meira að segja eftir forseta sem sagði eftir töluvert miklar umræður: Ég set ekki þingfund ef þetta á að vera svona áfram. Hann lét menn hreinlega tala saman.

En það er liðin tíð. Nú erum við með risamál fyrir framan okkur sem við þurfum að sjálfsögðu að fara yfir.

Það er áhugavert sem hv. þingmaður nefndi líka, hversu margir þingmenn hafa ekki tekið til máls í þessari umræðu. Kannski líta þeir svo á að þetta sé lítið og ómerkilegt mál sem þurfi ekkert að fara yfir. Mér finnst það mjög alvarlegt ef svo er vegna þess að um er að ræða raforkustefnu Evrópusambandsins sem verið er að taka upp á Íslandi. Við erum að innleiða ákveðnar reglur og lög, setja í lög reglur Evrópusambandsins, sem ætti að skipta máli, ekki síst þá þingmenn sem tala fyrir sjálfstæði landsins.

Mig langar að nefna annað sem hv. þingmaður kom inn á, síbyljuna um neytendavernd og lækkun raforkuverðs. Af hverju koma þingmenn ekki og rökstyðja með dæmum hvar hin mikla neytendavernd sé og hvernig raforkuverðið hafi lækkað og hvernig það mun lækka við þessar breytingar? Þetta eru bara frasar, orð sem hafa enga merkingu, ef það er ekki rökstutt á neinn hátt.