149. löggjafarþing — 112. fundur,  28. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[20:34]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég held að það liggi alveg ljóst fyrir hvernig umræðan um fjórða orkupakkann verður. Hún verður á þá leið að við verðum að samþykkja hann vegna þess að við erum búin að samþykkja orkupakka eitt, tvö og þrjú. Þess vegna held ég að það verði aðferðafræðin þegar kemur að því að þurfa að innleiða orkupakka fjögur.

Það sem er hins vegar mjög athyglisvert við þetta mál, og hv. þingmaður kom inn á það í máli sínu, er að nú hefur norska ríkisstjórnin fengið þessar gerðir og tilskipanir og fjórða orkupakka og sent út til umsagnar. Við fáum hins vegar engar fréttir af þessu. Ríkisstjórnin heldur þessu þétt að sér.

Herra forseti. Mér finnast þetta bara vera ákaflega slök vinnubrögð. Auðvitað eigum við að fá upplýsingar og umsagnir um fjórða orkupakkann jafnhliða þriðja orkupakkanum. Það eru ófrávíkjanlegar tengingar þarna á milli. Það er bara hluti af hinni upplýstu umræðu að við sjáum hvert við stefnum. Það er alltaf það viðhorf, og á sérstaklega við um þessa ríkisstjórn, að það eru rétt tekin allra minnsta skrefin. Það er ekkert horft fram á veginn, hvernig þetta kemur til með að þróast. Það vantar alla heildarmynd, alveg eins og að fresta því að taka á stjórnskipulega þættinum þar til að sæstrengur kemur. Það er alltaf verið að fresta öllu því sem er erfitt og þarfnast ítarlegri og betri umræðu.

Þess vegna skýtur það mjög skökku við að þetta mál eigi bara að renna hér í gegn, herra forseti.