149. löggjafarþing — 112. fundur,  28. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[20:38]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Já, hverjar verða varnir Íslands? Það er mjög mikilvæg spurning. Ég held hins vegar að það liggi ljóst fyrir að ríkisstjórnin er áhugalaus um að halda uppi vörnum, ef svo má að orði komast. Við sjáum það bara kristallast í því að ríkisstjórnin er ekki tilbúin til að fara þá lögformlegu leið sem við höfum, að fara með málið fyrir sameiginlegu EES-nefndina. Það er rétti vettvangurinn til að leysa deilumál.

Ríkisstjórnin er ekki tilbúin að fara þá leið en ætlar að fara leið sem kölluð er næstbesta leiðin, ef svo má að orði komast, setja fyrirvara sem verða einhliða. Það hefur margsýnt sig að Evrópusambandið er ekki hrifið af undanþágum eða fyrirvörum, hvað þá einhliða fyrirvörum. Ég held að það sé bara alveg dæmt til að mislukkast.

Þannig að ég verð nú að segja að varnir Íslands í þessum efnum eru ákaflega léttvægar. Verið er að fara einhverja fyrirvaraleið. Núna í dag var að koma frá héraðsdómslögmanni mjög merkilegt innlegg inn í þá umræðu að þeir fyrirvarar komi aldrei til með að halda. Búið er að skilgreina raforku sem vöru og ef við ætlum að fara að hindra það að vara flæði fram og til baka, eins og hún á að gera samkvæmt EES-samningnum, verða bara málaferli og við verðum dæmd. Þetta er nákvæmlega það sama og í kjötmálinu svokallaða, sem við höfum rakið hér. Þannig að niðurstaðan er sú, herra forseti, að ekki er verið að halda uppi neinum trúverðugum vörnum hvað okkur varðar.