149. löggjafarþing — 112. fundur,  28. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[20:41]
Horfa

Anna Kolbrún Árnadóttir (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni kærlega fyrir ræðuna. Ég veit að hann er alls ekki búinn með allt sem hann vildi segja í þessu máli en ég hjó sérstaklega eftir því að hann velti fyrir sér skilgreiningu á orku. Að mínu viti er skilgreiningin á orku eins og hún horfir við Evrópusambandinu sú að litið er á hana sem vöru.

Þá langar mig að spyrja hv. þingmann hvort hann hafi hugmynd um hvar sú skilgreining endar. Ef við erum að tala um orku á Íslandi snertir hún væntanlega auðlindir, ár og vötn. Nú þegar er farið að ræða um virkjunarkosti.

Að því sögðu finnst mér líka mjög mikilvægt, eins og hv. þingmaður kom inn á áðan, að við skoðum alla þessa pakka í samhengi. Ég vildi óska þess að það hefði strax legið ljóst fyrir með orkupakka eitt hvað væri í orkupakka tvö, þrjú, fjögur, fimm o.s.frv.

En það sem ég velti aðallega upp er: Hvar drögum við línuna í skilgreiningu á orku sem vöru? Eru auðlindirnar þá undir?