149. löggjafarþing — 112. fundur,  28. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[21:06]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég ætla ekki að fullyrða það, en mig minnir að ég hafi heyrt það í einni af þessum fáu ræðum sem komu frá þeim aðilum sem vilja innleiða þessi mál hér, sem styðja málið, að einhver hafi sagt: Dettur mönnum virkilega í hug að við ráðum ekki okkar eigin efnahagslögsögu, og eitthvað slíkt? Mig minnir að ég hafi heyrt þetta hér og ætla þess vegna ekki að nefna þingmanninn sem ég held að hafi sagt það því að ég er ekki nógu viss á því.

En já, okkur dettur það í hug, ekki síst þegar ljóst er að það virðist gilda í Noregi. Nú er spurning hvort við getum fengið einhverja sérfræðinga til að kanna það. Í Noregi virðist það gilda um norsku efnahagslögsöguna og landgrunnið og þá hlýtur það að gilda um Ísland. Það þýðir í mínum huga að ef einstaklingur, fyrirtæki, vill reisa vindorkugarð, ég ætla að halda mig við það, vindorkugarð, segjum bara Langanesi, og leggja sæstreng til Skotlands og selja orkuna hugsanlega áfram til Evrópu, gildir þessi tilskipun um landgrunnið og efnahagslögsöguna, sem styrkir væntanlega málatilbúnað viðkomandi, fari hann í mál við íslenska ríkið, t.d. af því að Orkustofnun hafi neitað honum um leyfi eða þá að reynt hafi verið að setja einhverjar aðrar hömlur á lagningu þessa strengs. Ég held að það sé vel þess virði að skoða það.

Varðandi framhaldið með efnahagslögsöguna og landgrunnið, velti ég hér upp í andsvari við annan hv. þingmann hvort það gæti skapað fordæmi ef við innleiddum þessa tilskipun. Má líta svo á að Norðmenn eftir innleiðingu hafi skapað fordæmi hjá sér varðandi einhvers konar aðra nýtingu, og í efnahagslögsögunni, en fyrir sæstreng.